Gursha

Vestræn matarmenning byggir um of á steingeldum samleik gaffals og munns, rétt eins og við séum hrædd við að tengjast matnum sem við erum að borða, og fáum okkur ekki til að snerta hann með fingrunum. Í útilegum hverfur gaffallinn oft úr þessari jöfnu, og þá er ekkert eftir nema fingur og munnur. Gursha er lokahnykkurinn í að brjóta niður þá múra sem koma í veg fyrir að sú athöfn að matast verði að fullu félagsleg upplifun.

Til er málverk, ættað frá hinni kristnu kirkju í Eþíópíu, sem sýnir þennan sið. Þar sitja þrettán manns við borð, sem ofið er úr tágum, og á því er risastór, sameiginlegur diskur. Þar eru allir sáttir við að borða með fingrunum af þessum sameiginlega diski, sleikja sósuna af fingrunum og ná sér síðan í meira.

Þarna fylgja Eþíópíubúar hefð sem felst í málshætti þeirra: þeir sem matast af sama diski munu ekki svíkja hvor annan. Ef þú hræðist það sem kemur út úr munni þeirra sem brjóta með þér brauðið ber það vott um grunsamlegt vantraust. Þumalfingursreglan er að ef þú treystir því sem gengur af munni þeirra til eyrna þinna ert þú svo opinn og móttækilegur fyrir þeim að engin smithræðsla kemst þar að. Slappaðu því af og reyndu að njóta þessarar máltíðar. Það mun ekki reynast þér mjög erfitt.

Eftir að hafa rifið bita af teff flatbrauðinu, injera, virðir þú fyrir þér hið kryddaða og rjúkandi landslag fyrir framan þig. Ef til vill færðu þér teig af þykkum mangó safa, engifer-múskat tei, eða tej (Eþíópiskur hunangsmjöður), á meðan þú tekur mikilvæga ákvörðun af mikilli alvöru. Ætlar þú að vefja harðsoðna egginu utan um hvítlauksspínatið, eða setja saman karríkryddaðar linsubaunir og piprað geita wat (kássa), — allt á ljúffengu brauði, sem sósan hefur bleytt í gegn?

Þegar óvissunni hefur verið eytt kemur hægri hendi þín niður og hremmir hina útvöldu bita, ásamt örlitlu af geitaosti, með leikni og nákvæmni. Með kærleika vefur þú brauðið saman utan um þennan litla munnbita, og lyftir í höfuðhæð. Bros vina þinna breikka og þeir opna munninn til að leyfa þér að setja munnfyllina á tungu sér, fingur strýkst mjúklega við framtönn líkt og nál á vinylplötu um leið og þú dregur hendi þína til baka og þeir fara glaðlega að tyggja.

Hvað er að gerast? Það er til táknræn saga sem segir að munurinn á himnaríki og helvíti felist eingöngu í matarvenjum íbúanna. Þegar hinir kvöldu i helvíti reyna að matast sitja þeir við pott sem er þrjátíu fet að þvermáli og fullur af gómsætri, næringaríkri kássu, og allir eru þeir með fáránlega, tíu feta langa matarprjóna, sem gerir þeim nær ómögulegt að koma upp í sig mat sem þeir ná með prjónunum.

Fyrirkomulagið í himnaríki er svipað, að öðru leiti en því að þar mata allir hvor annan. Með slíkri samvinnu eru allir glaðir og ánægðir. Það er eingöngu skortur á tillitsemi hinna kvöldu sem heldur þeim í helvíti.

Gursha vísar til þessarar venju, að útbúa af óeigingirni bita af mat og setja í munn annarra, og staðfesta þannig ákveðna líkamlega tengingu þegar hafður er í huga munurinn á kjötinu sem þú setur í injera og kjötinu sem þú setur injera í.

Ætla mætti að þessi siður sé rómantísk tjáning elskenda, en hann er ekki bundinn við þá sem láta varir sínar mætast á venjulegan hátt. Siðurinn er í engu frábrugðinn faðmlagi vina, og felur ekki í sér minni tengingu en þegar móðir matar barn sitt með fingrunum. Áður en þú getur tengst nokkrum manni þarftu fyrst að teygja þig í átt til hans.

Ef þú býður mér í mat að Eþíópiskum hætti ertu nægilega góður vinur til þess að ég mata þig af ánægju með mínum fyrsta bita. Ef ég er heppinn matar þú mig með þínum síðasta bita — og ef ekki hef ég eftir sem áður upplifað hina klístruðu töfra Eþíópiskrar matarveislu.